Logi og Ásgeir

Ásgeir Sigurvinsson

Logi Ólafsson

Ásgeir Sigurvinsson tók við landsliðinu tímabundið eftir að Atli Eðvaldsson sagði upp þann níunda maí 2003.  Þann þrettánda maí var Logi Ólafsson ráðinn sem hægri hönd Loga en nú starfa þeir saman og vega hvorn annan upp ef svo má segja.  Eftir sigur gegn Færeyjingum og Litháum í byrjun júní fengu Ásgeir og Logi samning til ársins 2005 hjá KSÍ.  Kíkjum á feril þeirra félaga.

Ásgeir fæddist í Vestmannaeyjum og lék með ÍBV 1972 og 1973, 21 leik í 1. deild og skoraði í þeim 7 mörk.

Hann gekk til liðs við belgíska 1. deildar félagið Standard Liege um mitt sumar 1973 og náði strax að tryggja sér fast í liðinu. Ásgeir lék með Standard fram á sumarið 1981, og var einn af máttarstólpunum í liðinu, a.m.k. síðari árin. Hann var fyrirliði um skeið og vann einn bikarmeistaratitil með félaginu.

Sumarið 1981 gekk hann til liðs við þýska stórveldið Bayern München, en með því léku nokkrir af Evrópumeisturum Vestur-Þjóðverja 1980, en Ásgeir fékk þar fá tækifæri.

Sumarið 1982 gekk hann svo til liðs við þýska félagið Stuttgart og lék með því til loka ferils síns. Ásgeir var lengi fyrirliði Stuttgart og þótti einn besti leikmaður þýsku 1. deildarinnar í mörg ár. Hann leiddi Stuttgart til meistaratitils veturinn 1983-1984 og var þá kjörinn besti knattspyrnumaður V-Þýskalands af leikmönnum deildarinnar.

Vorið 1989 lék hann með Stuttgart gegn Napoli í úrslitaleikjum UEFA-bikarkeppninnar, en beið lægri hlut. Ásgeir lék alls 211 leiki í Bundesligunni og skoraði 39 mörk. Hann lagði skóna á hilluna vorið 1990 og lauk þar með glæsilegum 17 ára ferli hans sem atvinnumanns.

Ásgeir lék fyrst með íslenska landsliðinu sumarið 1972, aðeins 17 ára gamall. Hann lék alls 45 leiki með landsliðinu, skoraði 5 mörk og var fyrirliði 7 sinnum, síðast haustið 1989. Ásgeir var lykilleikmaður íslenska landsliðsins á fyrsta uppgangstímabili þess, 1974-1975 og allar götur síðan. Hann tók þátt í mörgum mikilvægum sigrum, t.a.m. í leikjunum eftirminnilegu gegn A-Þýskalandi 1974 og 1975, og skoraði nokkur ógleymanleg mörk.

Ásgeir var tvívegis kjörinn íþróttamaður ársins af samtökum íþróttamanna, árin 1974 og 1984, og er eini knattspyrnumaðurinn sem hefur hlotnast sá heiður. Ásgeir starfaði um skeið hjá Stuttgart eftir að hann hætti að leika, en flutti heim nokkrum árum síðar.

Logi Ólafsson fæddist þann fjórtánda nóvember árið 1954 og verður því fimmtugur í haust. 

Logi lék á sínum tíma með Fimleikafélagi Hafnarfjarðar og lék þrjá leiki með U-19 ára landsliðinu árið 1972.  Hann var nú ekki jafngóður í boltanum og Ásgeir en lék á sínum tíma 66 leiki í úrvalsdeildinni (þá 1.deild) og skoraði tvö mörk.

Logi þykir góður þjálfari og frá 1987 hefur hann meðal annarsþjálfað kvennalið Vals, karlalið Víkings, Landsliðs kvenna (1993-1994), ÍA (bæði 1995 og aftur 1998 og 1999. 

Frá febrúar 1996 fram í júní 1997 var Logi landsliðsþjálfari karla.  Undir hans stjórn léku Íslendingar 14 leiki, unnu 4, gerðu 3 jafntefli og töpuðu 7 leikjum. 

Logi stýrði FH til sigurs í fyrstu deild árið 2000 samhliða því að stjórna kvennalandsliðinu.  Árið 2001 þjálfaði hann FH í úrvalsdeild og náði liðið fínum árangri af nýliðum að vera þriðja sæti. 

Eftir þetta fór hann út til Noregs og gerðist aðstoðarþjálfari hjá norska liðinu Lilleström.  Hann hætti þar eftir eitt tímabil og var svo ráðinn landsliðsþjálfari með Ásgeiri 13.maí eins og fyrr segir. 

Loga er margt til lista lagt og hann lýsir knattspyrnuleikjum á Sýn af stakri snilld og þykir með þeim skemmtilegri þar sem að húmorinn er aldrei langt undan hjá honum.

















 

Designed by DesignEuropA.com Heim