Frétt

Mið 18.ágú 2004
Frábær sigur Íslendinga á Ítölum
Það er ekki hægt að segja annað en að þetta kvöld á Laugardalsvelli sé eitt það magnaðasta í langan tíma og jafnvel magnaðasta kvöld frá upphafi á vellinum. Áhorfendametið frá Valur - Benfica árið 1968 var bætt en 20,204 áhorfendur mættu á leikinn í kvöld.

Leikurinn í kvöld byrjaði rólega og ítölsku strákarnir voru örlítið betri. Á tíundu mínútu var misskilningur á milli Birkis Kristinssonar í marki Íslendinga og Kristjáns Arnar Sigurðssonar. Fabio Bazzani leikmaður Sampdoria náði boltanum lék framhjá Birki og sendi fyrir frá endalínu fastan bolta niðri en boltinn silgdi fyrir og enginn leikmaður var þar.

Á sautjándu mínútu kom fyrsta markið. Fyrirliðinn Eiður Smári sendi boltann út á Þórð Guðjónsson. Þórður sendi boltann á Heiðar Helguson sem að framlengdi hann á Gylfa Einarsson. Gylfi var við vítateigslínu aðeins vinstra megin við vítateigsbogann, hann skaut fínu skoti með vinstri fæti í fjærhornið, Gianluigi Buffon markvörður Ítala varði boltann upp í loft og á markteig var Eiður mættur og skoraði.

Eiður fagnaði með "Bréfberadansinum" sem að hann og Sveppi gerðu vinsælan síðastliðið sumar í auglýsingum í sjónvarpi. Áhorfendur í Laugardalnum fóru að syngja sigursöngva en mínútu síðar átti Marco Di Vaio fínt skot fyrir Ítali en hinn fertugi Birkir í markinu varði vel.

Á nítjándu mínútu kom annað mark leiksins. Heiðar Helguson fékk boltann í vítateignum vinstra megin, áttu laust og hálfmisheppnað skot, Marco Matterazzi varnarjaxlinn hjá Ítölum skaut hinsvegar í boltann, hann fór í stöngina og út þar sem að Gylfi kom og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með skoti á lofti með vinstri fæti. 2-0 eftir innan við tuttugu mínútur á móti Ítölum og helstu bjartsýnismenn hefðu varla trúað þessu.

Sex mínútum eftir annað markið þá fékk Heiðar Helguson ágætis færi eftir að Rúnar Kristinsson hafði unnið boltann og gefið á Eið sem að framlengdi hann á Heiðar. Því miður fyrir Íslendinga þá skaut hann framhjá. Fjórum mínútum síðar fékk Heiðar frábært færi. Þórður Guðjónsson átti langa og fallega sendingu frá hægri kant yfir á þann vinstri. Eiður lét boltann fara og plataði með því varnarmann Ítala. Indriði Sigurðsson komst upp að endamörkum og sendi fyrir þar sem að Heiðar fékk boltann á markteig en skaut yfir.

Á 35. mínútu kom hættuleg fyrirgjöf frá Ítölum en Kristján Örn Sigurðsson náði að að stíga sóknarmann Ítala út og bjarga því að hann setti boltann í netið. Á 42.mínútu átti Di Vaio leikmaður Valencia hörkuskot en Birkir varði vel. Staðan í leikhléi 2-0.

Á 49. mínútu var Birki Kristinssyni skipt út af en þetta var síðasti landsleikur hans fyrir Íslendinga og fékk hann verðskuldað klapp frá áhorfendum er hann gekk af velli.

Fjórum mínútum síðar fékk varamaðurinn Aimo Stefano Diana stungusendingu en móttakan var léleg og skot hans fór yfir. Á 65.mínútu átti varamaðurinn Giuseppe Favalli skalla í hliðarnetið af markteig eftir hornspyrnu frá Fabrizio Miccoli.

Þremur mínútum, síðar átti Manuele Blasi lúmskt skot fyrir utan teig sem að fór yfir Árna og datt ofan á markið. Skemmtileg tilaun þar á ferð. Ítölum gekk illa að skapa sér góð færi og reyndu mest langskot sem að Árni Gautur átti ekki í vanræðum með.

Á 82. mínútu náðu Íslendingar þungri sókn eftir að hafa legið heldur til baka í síðari hálfleik. Indriði sendi boltann á fjærstöng þar sem að Þórður var hann rendi boltann út í vítateiginn og þar átti Brynjar Björn Gunnarsson hörkuskot en Alessandro Birindelli bjargaði á línu.

Undir blálokin þá áttu Ítalir aukaspyrnu á hættulegum stað og leikmaður þeirra átti fínt skot sem að varnarjaxlinn Hermann Hreiðarsson náði að skalla burt á línu.

Lokatölur 2-0 fyrir Íslendingum í frábærum leik.

Ísland
Birkir Kristinsson (Árni Gautur Arason 49.mínútu), Kristján Örn Sigurðsson, Ólafur Örn Bjarnason, Hermann Hreiðarsson Þórður Guðjónsson (Pétur Hafliði Marteinsson 85.mínútu), Brynjar Björn Gunnarsson, Indriði Sigurðsson (Arnar Þór Viðarson 83.mínútu), Gylfi Einarsson (Arnar Grétarsson 67.mínútu), Rúnar Kristinsson (Jóhannes Karl Guðjónsson 74.mínútu), Heiðar Helguson (Veigar Páll Gunnarsson 83.mínútu), Eiður Smári Guðjohnesen (F), Ónotaðir varamenn: Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Helgi Sigurðsson, Ívar Ingimarsson

Ítalía
Gianluigi Buffon, Massimo Oddo (Alessandro Birindelli 46.mínútu), Alessandro Nesta (F), Marco Matterazzi, Gianluca Zambrotta (Giuseppe Favalli 58.mínútu), Sergio Volpi (Aimo Stefano Diana 46.mínútu), Gennaro Ivan Gattuso, Simone Perotta (Manuele Blasi 46.mínútu), Stefano Fiore Fabio Bazzani (Luca Toni 56.mínútu), Marco Di Vaio (Fabrizo Miccoli 46.mínútu)

Skemmtanagildi: 10
Maður leiksins: Allt íslenska liðið
Vallaraðstæður: Frábærar
Veður: Mjög gott, sól og blíða
Áhorfendur: 20.204

 

 

Designed by DesignEuropA.com Heim