Fréttir

Fim 19.ágú 2004
Ásgeir var heiðraður fyrir leikinn í gær
Fyrir leikinn gegn Ítölum í gær var Ásgeir Sigurvinsson heiðraður sem sá leikmaður sem skarað hefur mest fram úr meðal íslenskra knattspyrnumanna á síðastliðnum 50 árum. Sams konar viðurkenning er veitt í öllum aðildarlöndum UEFA og er hún liður í hátíðahöldum vegna 50 ára afmælis sambandsins.

Áætlað er að vera með kynningu á 52 leikmönnum, einum frá hverju aðildarlandi, á sýningarsvæði sem sett verður upp í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss og mun verða þar til frambúðar. Stjórn KSÍ hefur valið Ásgeir Sigurvinsson.

Ferill Ásgeirs Sigurvinssonar (af ksi.is)
Fæddur 1955

Lék með ÍBV 1972 og 1973, 21 leik í 1. deild og skoraði í þeim 7 mörk.

Gekk til liðs við belgíska 1. deildar félagið Standard Liege um mitt sumar 1973 og náði strax að tryggja sér fast í liðinu. Ásgeir lék með Standard fram á sumarið 1981, og var einn af máttarstólpunum í liðinu, a.m.k. síðari árin. Hann var fyrirliði um skeið og vann einn bikarmeistaratitil með félaginu.

Sumarið 1981 gekk hann til liðs við þýska stórveldið Bayern München, en með því léku nokkrir af Evrópumeisturum Vestur-Þjóðverja 1980, en Ásgeir fékk þar fá tækifæri.

Sumarið 1982 gekk hann svo til liðs við þýska félagið Stuttgart og lék með því til loka ferils síns. Ásgeir var lengi fyrirliði Stuttgart og þótti einn besti leikmaður þýsku 1. deildarinnar í mörg ár. Hann leiddi Stuttgart til meistaratitils veturinn 1983-1984 og var þá kjörinn besti knattspyrnumaður V-Þýskalands af leikmönnum deildarinnar. Vorið 1989 lék hann með Stuttgart gegn Napoli í úrslitaleikjum UEFA-bikarkeppninnar, en beið lægri hlut. Ásgeir lék alls 211 leiki í Bundesligunni og skoraði 39 mörk. Hann lagði skóna á hilluna vorið 1990 og lauk þar með 17 ára ferli hans sem atvinnumanns.

Ásgeir lék fyrst með íslenska landsliðinu sumarið 1972, aðeins 17 ára gamall. Hann lék alls 45 leiki með landsliðinu, skoraði 5 mörk og var fyrirliði 7 sinnum, síðast haustið 1989. Ásgeir var lykilleikmaður íslenska landsliðsins á fyrsta uppgangstímabili þess, 1974-1975 og allar götur síðan. Hann tók þátt í mörgum mikilvægum sigrum, t.a.m. í leikjunum eftirminnilegu gegn A-Þýskalandi 1974 og 1975, og skoraði nokkur ógleymanleg mörk.

Ásgeir var tvívegis kjörinn íþróttamaður ársins af samtökum íþróttamanna, árin 1974 og 1984, og er eini knattspyrnumaðurinn sem hefur hlotnast sá heiður.

Ásgeir starfaði um skeið hjá Stuttgart eftir að hann hætti að leika, en flutti heim nokkrum árum síðar. Hann er núverandi landsliðsþjálfari Íslands.

Ásgeir var ekki sá eini sem var heiðraður í gær. Í tilefni af 50 ára afmæli UEFA og 100 ára afmæli FIFA var nokkrum einstaklingum veitt sérstök heiðursviðurkenning fyrir ómetanlegt sjálfboðaliðastarf í þágu knattspyrnuhreyfingarinnar hér á landi. Þeir Ásgeir Ármannsson - Víkingi R., Guðjón Guðmundsson - ÍA, Jóhann Ólafsson - ÍBV, Konráð Ó. Kristinsson - Breiðabliki og Páll Magnússon - Þór, fengu sérstaka viðurkenningu í tilefni af 50 ára afmæli UEFA, og Albert Eymundsson - Sindra, fékk sérstaka viðurkenningu í tilefni af 100 ára afmæli FIFA. Þessir menn hafa gefið knattspyrnunni á Íslandi áratuga hugsjónastarf og eiga þakkir skildar fyrir ómetanlegt framlag sitt.

 
Designed by DesignEuropA.com Heim